6.2.2008 | 23:41
Betra seint en aldrei.
Jæja þá er jólabloggfríið búið og mál til komið að halda áfram. En á meðan rithöfundur síðunnar er að læra á takkaborðið upp á nýtt lætur hann flakka hér gamalt blogg sem hann fann í handraðanum.
Ég var að horfa á X-Factor áðan og þar komst færeyingurinn Jógvan áfram sem er kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir það að maðurinn heitir Jógvan og er færeyingur. Það búa að ég held 50 þúsund manns í Færeyjum og væntanlega eru helmingurinn af þeim konur sem þýðir að 25 þúsund karlmenn búa í færeyjum. Þetta er svona frekar auðvelt reikningsdæmi fyrir meðaljón eins og mig. En af þessum 25 þúsund karlmönnum heita örugglega helmingurinn af þeim Jógvan. Ég byggi þessa útreikninga mína á því að ég hef tvisvar sinnum komið til Færeyja. Í fyrra skiptið kom ég til Fuglafjarðar á Grindvíking GK fyrir allmörgum árum til þess að landa loðnu og að sjálfsögðu klæddi maður sig upp og fór og skoðaði mannlífið í Fuglafirði. Eftir að hafa farið á veitingastað og borðað steiktan ufsa og franskar sem kokkurinn Jógvan eldaði fór ég til Rúnavíkur með strákunum á Grindvíking til þess að versla í heildverslun. Leigubílstjórinn sem skutlaði okkur þangað hét Jógvan. Þegar ég kom inn í heildversluninna sá ég stimpilklukku þar sem 12 nöfn starfsmanna voru tveir kvennmenn og tíu karlmenn og fimm af þeim hétu Jógvan. Mér fannst þetta frekar fyndið að svona margir hétu þessu nafni. Svo þegar við vorum að fara frá Fuglafirði og löndunargengið var að tía sig frá borði þá datt mér í hug að kalla hátt "hey Jógvan, hvað er klukkan" og viti menn, helmingurinn snéri sér við og sagði mér það.
Svo nokkrum árum seinna fór ég á Ólafsvöku. Maður byrjaði á því að fara á barinn í Norrænu þegar við lögðum af stað frá Seyðisfirði og hver annar en Jógvan var að afgreiða á barnum. Ég gisti á farfuglaheimili á meðan Ólafsvakan stóð yfir og auðvitað var Jógvan farfuglaheimilisstjóri. Svo eina nóttina lenti ég í rosa partíi og mig syfjaði alveg svakalega og sofnaði í sófanum og þegar ég vaknaði var búið að breiða yfir mig teppi. Þegar ég vaknaði og fór út þá var mér litið á útidyrahurðina og þar stóð á hurðinni Jógvan og Anna, ekki veit ég hvort þessi Anna var íslensk en heimilisfaðirinn hét Jógvan. Það væri gaman að vita það hver hafi breytt yfir mig teppið, ég kemst sennilega aldrei að því. Svo lendum við félagarnir í því að gamall ekkjumaður bauð okkur heim til sín. BrimklóarSvenni var með Hot and sweet flösku með sér sem gamli ekkjumaðurinn stal af honum og lét sig hverfa og skildi okkur eina eftir í húsinu sínu. Þá rak ég augun í að ég held rafmagnsreikning og þar stóð Jógvan. Daginn eftir sáum við Jógvan gamla vel við skál í miðbæ Þórshafnar kolsvartan um munnin með hot and sweet flöskuna hans BrimklóarSvenna og var hún nánast tóm. Allir þessir Jógvanar sem ég hef hitt í Færeyjum segja mér það að 12.500 færeyingar heita Jógvan og einn af þeim er í X-Factor
Flokkur: Spaugilegt | Breytt 7.2.2008 kl. 11:47 | Facebook
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.