4.9.2010 | 10:20
Skagaströnd
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2008 | 15:06
Ferðasagan mikla
Ferð Geirfuglsmanna ásamt spúsum sínum til Manchester verður seint talin venjuleg fótboltaferð. Þessi ferð var óslitinn sigurganga frá upphafi til enda. Reyndar ruglaðist limmósíu bílstjórinn sem átti að skutla okkur á flugvöllinn á árum og hélt að hann ætti að ná í okkur 11.apríl 2009. En það reddaðist og við mættum á flugvöllinn á réttum tíma. Það dugðu ekkert minni sæti undir þennan hóp heldur en Saga Class enda biðraðir ekki ofarlega á vinsældalista sexmenningana. Óli, Haukur og Stjáni fóru að sjá leik Bolton og West Ham á laugardeginum. Stór e-mail vinur Stjána Guðni Bergsson hafði reddað þeim miðum. Óli og Stjáni komust að því að leikurinn átti að byrja klukkan 15:00 en gleymdu að segja Hauk það sem hélt að leikurinn átti að byrja klukkan 14:00. Þeir félagar voru mættir tímanlega á völlinn og fóru beint í miðasöluna og sögðu Guðni Bergs í gegnum glerið og þrír miðar komu út um hæl. Þá var farið á stuðningsmannakeiluhöllina og drukkið í sig stemminguna. Klukkan 13:40 er ákveðið að fá sér sveittann breskan hamborgara en Haukur er orðin öðruvísi en hann er undir venjulegum kringumstæðum en segir fátt, hann lítur oft útum gluggann og stendur oft upp og lítur í allar áttir, svo þegar borgararnir koma klukkan 13:55 og við byrjum að borða bregst þolinmæðin hjá Hauk og hann stendur upp og hreytir útúr sér "ÆTLIÐI BARA AÐ SJÁ SEINNI HÁLFLEIK" þetta var með fyndari atriðum í ferðinni. Haukur róaðist þegar hann komst að því að leikurinn átti ekki að byrja fyr en eftir klukkutima. Við röltum síðan fljótlega á völlinn og sáum ágætis fótboltaleik, Bolton skoraði 3 mörk en tvö voru dæmd af þannig að leikurinn endaði 1-0 fyrir Bolton og eygja þeir en von um að halda sér í deildinni. En sunnudagurinn rann upp og spenningurinn stigmagnaðist enda stórleikur framundan Manchester United-Arsenal. Var farið tímanlega af stað og komið við á Trafford barnum fyrir leik þar sem alveg mögnuð stemming var, þar var sungið mikið og mikið fjör á öllum. Einum og hálfum tíma fyrir leik vorum við komin í sætin okkar sem voru á besta stað mjög nálægt varamannabekkjunum. Freddy rauði heilsaði uppá okkur og var hann í góðum gír. Fyrri hálfleikur var fjörugur og voru Arsenal ögn skárri en Van der Saar sá við þeim en Manchester United áttu sína spretti líka en inn fór boltinn ekki og staðan því 0-0 í hálfleik. Seinni hálfleikur byrjaði með látum og fljótlega skoraði Arsenal mark með hendinni sem var látið standa og fjögur þúsund geðsjúklingar frá London trylltust af fögnuði en sá fögnuður átti eftir að reynast skammvinur. Manchester United fékk réttilega dæmda vítaspyrnu sem besti knattspyrnumaður heims í dag Ronaldo skoraði úr og gríðarlegur fögnuður 71 þúsund stuðningsmanna Manchester United braust út og stemmingin á vellinum var orðinn allsvaðaleg. Þegar um tuttugu mínútur voru eftir af leiknum fengu Manchester United aukaspyrnu á ákjósanlegum stað og allir bjuggust við að Ronaldo myndi taka hana en Owen Hargreaves hljóp að boltanum og skaut beint í hornið MARK og staðan orðin 2-1. Fögnuðurinn á vellinum var gríðarlegur, þvílíkur leikur, þvílík stemming. Svo hófust svaðalegar lokamínútur og að lokum flautaði dómarinn til leiksloka og Manchester United komnir með aðra höndina á bikarinn. Á leiðinni útaf vellinum og alla leið að Trafford barnum var stanslaust sungið undir dyggri stjórn Magnúsar Gylfasonar sem hreinlega missti sig í fagnaðarlátum og hélt uppi söngvum eins og Viva Ronaldo og he goes by the name of Wayne Rooney og mörgum fleiri lögum. Englendingarnir kunnu vel að meta framlag Magnúsar og tóku undir með honum. Svo var farið á hótelið og áttu sumir auðveldara með komast niður á jörðina en aðrir. Um kvöldið var farið á ónefnan ítalskan veitingastað sem er ekki í frásögur færandi nema fyrir það að þetta átti og mun hafa áhrif á líf sexmenningana til æviloka að vísu mun meiri áhrif á suma en aðra. Þegar okkur var vísað til borðs þá fóru sexmenningarnir að taka eftir að engin annar en snillingurinn og einn leikjahæsti leikmaður Manchester United sjálfur Ryan Giggs sat á snæðingi á borði við hliðina á okkar borði. Það fór að myndast hljóðlegur múgæsingur hjá hópnum og matseðlarnir voru eitthvað sem engin af hópnum spáði í fyrsta korterið. Ryan Giggs sat þarna með konunni sinni, foreldrum og tengdaforeldrum. Þetta kvöld var í rauninni lyginni líkast og ástandið á sumum úr hóp sexmenningana jaðraði við geðtruflaða sögupersónu eftir Alfred Hithcock. En Giggs tók þessu öllu saman með jafnaðargeði og tók sexmenningana opnum örmum og flassið dundi á silkimjúka húð hans. Magnaðasti sunnudagur í lífi hópsins var senn á enda og sofnuðu flestir með bros á vör. Lokadagurinn rann upp og farið var í skoðunarferð um Leikhús Draumanna og er það alltaf jafn spennandi og fróðlegt. Borðað var á Red Cafe, sumir misstu sig en eina ferðina í Megastore. Svo eyddi hópurinn deginum á mismunandi vegu, sumir fóru í Trafford Center aðrir í indverskt höfuðnudd enda margt hægt að gera í líflegustu og skemmtilegustu borg evrópu Manchester.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2008 | 13:34
Leikhús draumanna
Það þarf engan Einstein til að sjá það að leikhús draumanna í Manchesterborg er besta leikhús í heimi. Alltaf þegar á reynir sýna strákarnir hans Ferguson hvað í þeim býr og það sást svo sannarlega þegar þeir tóku "hið léttleikandi " lið Arsenal og niðurlægðu það í gær á Old Trafford. Það sást alveg frá byrjun í hvað stefni og 4-0 sigur var síst of stór. Bikarkeppnin er alltaf jafn skemmtileg og hefði verið gaman að fá Liverpool í næstu umferð en því miður fyr þá þá töpuðu þeir fyrir trésmiðum,járnsmiðum, sjoppueigendum, leigubílstjórum og hárskerum frá Barnsley sem er 72.000 manna bær í suður Yorkshire héraði á mið Englandi. En þeir verða bara í öðru þegar næsta umferð verður leikinn. Þetta er svona svipað og ef trillukarlar frá Kópaskeri myndu slá FH útúr bikarnum hérna á klakanum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2008 | 09:56
Bræla framundan?
Mikill fjöldi lægða við Íslandsstrendur á umliðnum vikum og mánuðum hefur tæpast farið framhjá neinum. Samkvæmt upplýsingum frá Einari Sveinbjörnssyni veðurfræðingi skýrist þetta af því að svonefndur kuldapollur, þ.e. staðurinn þar sem mesti háloftakuldinn ríkir hverju sinni, liggur óvenjunálægt landinu um þessar mundir. Að sögn Einars hefur háloftakuldinn yfir Grænlandi verið meiri og nær Íslandi síðustu mánuði en mörg undanfarin ár. Hins vegar sé tíðarfarið nú ekki ósvipað því sem var nokkra vetur í kringum 1990.
Aðspurður segir Einar það nánast tilviljun hvar þessi átakapunktur í háloftunum lendi hverju sinni. Bendir hann á að sum árin sé mesti háloftakuldinn yfir miðju Kanada, önnur ár lendi hann yfir Síberíu eða nálægt Alaska og stundum sé hann yfir Svalbarða. Kuldapollurinn hafi hins vegar ráðandi áhrif á vetrarveðráttuna á stóru svæði í kringum hann.
Spurður hvort hægt sé að segja fyrir um staðsetningu kuldapollsins ár hvert segir Einar menn vissulega reyna það, en með misjöfnum árangri þó. Bendir hann á að oft raði stóru línurnar á norðurhveli sér upp snemma vetrar, í nóvember og desember, í ákveðið kerfi sem síðan haldist út veturinn. Stundum brotni þetta hins vegar upp og raði sér upp á nýtt um miðjan vetur og þá oft með skömmum fyrirvara.
Aðspurður hvernig langtímaútlitið sé bendir Einar á að Evrópska reiknimiðstöðin (ECMWF) hafi í þriggja mánaða spá sinni fyrir janúar til mars spáð því að hérlendis yrði lægðagangur með úrkomu ofan meðallags og hita um eða yfir meðallagi. Ef veðráttan tekur ekki miklum breytingum það sem eftir er tímabilsins þá er þetta nú alveg í áttina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2008 | 11:51
Ár rottunnar
Ár rottunnar er gengið í garð í Kína og óskar áhöfnin á Geirfugli öllum kínverjum til sjávar og sveita innilega til hamingju með árið.
En af Geirfuglsmönnum er allt gott að frétta. Haukur hefur sökkt sér inn í forsetakosningarnar vestanhafs og er hann ákafur stuðningsmaður Obama enda er Haukur af afrískum ættum og talið er að þeir félagar séu skyldir. Atvinnuuppstokkarasérfræðingurinn Hafsteinn Kjartansson er með annan fótinn á bensíngjöfinni á nýja Nizzaninum sínum þessa daganna og fær hann ekkert stoppað.
En að máli málanna, línuveiðum, miklar og langvarandi brælur hafa sett svip sinn á veturinn en þokkalegt fiskerí hefur verið þegar gefur og höfum við verið að fá þorska sem eiga ekki að vera til í sjónum en langskólagengnu mennirnir í Reykjavík segja það og við eigum bara að trúa því og við gerum það, við höldum að þessir golþorskar séu litlir karfar. Hvenær skildi verða ár þorsksins verða á Íslandi?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2008 | 23:41
Betra seint en aldrei.
Jæja þá er jólabloggfríið búið og mál til komið að halda áfram. En á meðan rithöfundur síðunnar er að læra á takkaborðið upp á nýtt lætur hann flakka hér gamalt blogg sem hann fann í handraðanum.
Ég var að horfa á X-Factor áðan og þar komst færeyingurinn Jógvan áfram sem er kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir það að maðurinn heitir Jógvan og er færeyingur. Það búa að ég held 50 þúsund manns í Færeyjum og væntanlega eru helmingurinn af þeim konur sem þýðir að 25 þúsund karlmenn búa í færeyjum. Þetta er svona frekar auðvelt reikningsdæmi fyrir meðaljón eins og mig. En af þessum 25 þúsund karlmönnum heita örugglega helmingurinn af þeim Jógvan. Ég byggi þessa útreikninga mína á því að ég hef tvisvar sinnum komið til Færeyja. Í fyrra skiptið kom ég til Fuglafjarðar á Grindvíking GK fyrir allmörgum árum til þess að landa loðnu og að sjálfsögðu klæddi maður sig upp og fór og skoðaði mannlífið í Fuglafirði. Eftir að hafa farið á veitingastað og borðað steiktan ufsa og franskar sem kokkurinn Jógvan eldaði fór ég til Rúnavíkur með strákunum á Grindvíking til þess að versla í heildverslun. Leigubílstjórinn sem skutlaði okkur þangað hét Jógvan. Þegar ég kom inn í heildversluninna sá ég stimpilklukku þar sem 12 nöfn starfsmanna voru tveir kvennmenn og tíu karlmenn og fimm af þeim hétu Jógvan. Mér fannst þetta frekar fyndið að svona margir hétu þessu nafni. Svo þegar við vorum að fara frá Fuglafirði og löndunargengið var að tía sig frá borði þá datt mér í hug að kalla hátt "hey Jógvan, hvað er klukkan" og viti menn, helmingurinn snéri sér við og sagði mér það.
Svo nokkrum árum seinna fór ég á Ólafsvöku. Maður byrjaði á því að fara á barinn í Norrænu þegar við lögðum af stað frá Seyðisfirði og hver annar en Jógvan var að afgreiða á barnum. Ég gisti á farfuglaheimili á meðan Ólafsvakan stóð yfir og auðvitað var Jógvan farfuglaheimilisstjóri. Svo eina nóttina lenti ég í rosa partíi og mig syfjaði alveg svakalega og sofnaði í sófanum og þegar ég vaknaði var búið að breiða yfir mig teppi. Þegar ég vaknaði og fór út þá var mér litið á útidyrahurðina og þar stóð á hurðinni Jógvan og Anna, ekki veit ég hvort þessi Anna var íslensk en heimilisfaðirinn hét Jógvan. Það væri gaman að vita það hver hafi breytt yfir mig teppið, ég kemst sennilega aldrei að því. Svo lendum við félagarnir í því að gamall ekkjumaður bauð okkur heim til sín. BrimklóarSvenni var með Hot and sweet flösku með sér sem gamli ekkjumaðurinn stal af honum og lét sig hverfa og skildi okkur eina eftir í húsinu sínu. Þá rak ég augun í að ég held rafmagnsreikning og þar stóð Jógvan. Daginn eftir sáum við Jógvan gamla vel við skál í miðbæ Þórshafnar kolsvartan um munnin með hot and sweet flöskuna hans BrimklóarSvenna og var hún nánast tóm. Allir þessir Jógvanar sem ég hef hitt í Færeyjum segja mér það að 12.500 færeyingar heita Jógvan og einn af þeim er í X-Factor
Spaugilegt | Breytt 7.2.2008 kl. 11:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2007 | 11:36
Til hamingju Óli
Óli Björn Björgvinsson er fertugur í dag. Óli hefur alið manninn víða á sinni hnitmiðuðu ævi. Hann fór ungur að hafa áhuga á ýmiskonar veiðum enda ættaður frá Grímsey og átti ekki langt að sækja það. Hann er svo stoltur af uppruna sínum að hann er með mynd af konungi Grímseyjar Willard Fiske á sérútbúnu skáknáttborðinu sínu. Óli gerði garðinn frægann í Verslunarskóla Íslands og las mikið enda áhuginn mikill, hann hætti í Verslunarskólanum þegar hann var farinn að drekka rjóma með pulsunum og tengdi það að hann væri að því kominn að lesa yfir sig. Þetta var hárrétt ákvörðun og lá leiðinn í Stýrimannaskólann og þar fann hann sig og vissi að hann væri á réttri hillu í lífinu. Sjómennskan átti hug hans og hjarta og stundaði Óli loðnu og netaveiðar. Óli átti Vídeóleigu um tíma og var mikið í Los Angeles að semja við Warner Bros og fleiri kvikmyndaframleiðendur um einkarétt á útleigu á kvikmyndum og oftar en ekki náði hann afar hagstæðum samningum og var vídeóleigan hans oftar en ekki sú eina með allra nýustu myndirnar. Í dag gerir Óli út línubeitningarbátinn Geirfugl GK 66 og er formaður körfuknattleiksdeildarinnar. Óli skrapp norður yfir heiðar og náði sér í kvonfang Guðrúnu Jónu sem er frá Akureyri og eiga þau fjögur börn. Guðrún varð fertug á árinu og það skemmtilega vill til að þau voru líka þrítug á sama ári fyrir tíu árum. Strákarnir hans á Geirfugli eru gríðarlega ánægðir með Óla enda Óli afar heilsteyptur maður og laus við allt rugl. Áhöfnin á Geirfugli óska Óla innilega til hamingju með þessi merku tímamót. Óli og Guðrún halda um á þessa áfanga í paradísinni Manchester.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.11.2007 | 17:51
Hann á afmæli í dag
Haukur Guðberg Einarsson er 35 ára gamall í dag. Haukur hefur marga fjöruna sopið og hefur ekki kallað allt ömmu sína í gegnum tíðina. Á unga aldri dreymdi Hauk um að verða sjómaður. Um 10 ára aldur fór hann að dreyma að hann væri staddur á bát sem hét Ögmundur og væri á dragnót í Faxaflóa á kolaveiðum, þennan draum dreymdi hann nánast á hverri nóttu í mörg ár. Hann var orðinn svo hugfanginn af þessum draum að þetta var farið að stjórna lífi hans. Hann hugsaði um fátt annað en kolaveiðar í Faxaflóa. Þegar hann var kominn með aldur þá var það hans fyrsta verk að ráða sig á dragnótabátinn Þröst RE. Í 20 ár gerði hann alsæll að kola í Faxaflóa og fannst honum stundum að hann væri í himnaríki svo gaman fannst honum. Síðastliðnu mánuði hefur hann fundið sig æ betur í nýjum farvegi á línuveiðum og rær nú á Geirfugli GK. Haukur er hvers manns hugljúfi og það geislar af honum hvert sem hann hefur komið. Hann kynntist konunni sinni ungur að árum og náði að einungis að barna hana tvisvar sökum annríkis við kolaaðgerð. Haukur er sannkallaður þúsundþjalasmiður og hefur hann aldrei málað sig útí horn heldur hefur hann málað heilu byggingarnar, leikið í tónlistarmyndböndum, reist upp gifsveggi og svona mætti lengi telja. Hann er líka afar klár í rafmagni og eyðir hann mikið af frítíma sínum með rafmagnsfræðingnum og vini Einar 12 volt frá Hafnarfirði. Hittast þeir félagar oft á kvöldin og rífa í sundur altaritora og setja saman aftur og það er oft glatt á hjalla hjá þeim félögum. Haukur er vinmargur enda afar félagslyndur og stefnir hátt í pólitík, hann er framsóknarmaður af guðs náð og er með mynd af Halldóri Ásgrímssyni á náttborðinu hjá sér. Haukur er í miklu sambandi við Halldór og er Halldór að hjálpa honum að komast til valda í framsóknarflokknum. Áhöfn og útgerð Geirfugls GK óskar Hauki innilega til hamingju með árin 35.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar